föstudagur, desember 22, 2006

Bóksalar, Hannes, Eitur og Norrænar bókmenntir

Fjallað er um bókmenntaverðlaun bóksala í Blaðinu í dag. Þar er Kristján Freyr Halldórsson, verslunarstjóri Eymundsson, tekinn tali og segir hann upp og ofan af verðlaunum. Segist Kristján sjálfur hafa valið Eitur fyrir byrjendur eftir Eirík Örn Norðdahl sem bestu íslensku skáldsöguna. Þá tjáir Kristján sig einnig um ævisögu Óttars Martin Norðfjörð, Hannes - nóttin er blá, mamma, og segir: „Þetta er mjög áhugavert mál frá a-ö. Ég hef lúmskt gaman af þessu öllu saman, sérstaklega þegar maður heyrir frá bókaútgefendum sjálfum sem margir hverjir eru að malda í móinn. Hannes er bók því hún er með IBSN númer. Mín Biblía fyrir jólin eru Bókatíðindi sem Félag íslenskra bókaútgefenda sér um og þar er bókin skilgreind sem bók og sem slík er hún skráð inn í okkar verslanir. Hannes hefur selst vonum framar, Óttar var að árita í einni af okkar verslunum um helgina og það fóru mörg hundruð eintök út. Málstaðurinn er góður en allur ágóði rennur til Mæðrastyrksnefndar. Mér finnst þetta ákaflega göfugt og gott framtak hjá honum Óttari fyrir jólin og ég bíð spenntur eftir næsta bindi.“

Þá er rétt að benda á að dómur Þórunnar Hrefnu Sigurjónsdóttur um Eitur fyrir byrjendur í Víðsjá. Sagði Þórunn m.a.: "Sorgin í sögunni, sem er umtalsverð, er ekki tækluð með neinu sorgarklámi, sem betur fer. Sögumaðurinn sýnir hæfilega nærgætni þó að hann sé stundum meinhæðinn, sem er undarlega heillandi, eins sikk og það hljómar. [...] Eiríkur Örn Norðdahl sýnir á sér nýjar hliðar með Eitri fyrir byrjendur. Hún er dýpri, einhvern veginn fegurri en fyrri bækur hans. Og þó að kafað sé í innsta eðli mannlegrar sorgar er það gert af hæfilegum stráksskap þess sem veit að sorgin og sektin verða alltaf til staðar hvort sem við lokum okkur inni eða eitrum fyrir okkur. Þess vegna er um að gera að láta byrðarnar ekki sliga sig...og bara flissa svolítið."

Dóminn má lesa hér.

Loks má geta þess að nýlega birtist grein í tímaritinu Nordisk Litteratur um Nýhil. Ingi Björn Guðnason skrifar. Greinina má lesa (á ensku) hér.

Eitur fyrir byrjendur má kaupa með því að smella hér, og Hannes má kaupa með því að smella hér.

Engin ummæli: