miðvikudagur, desember 13, 2006

Af ósviknum meistaraverkum, nautnum og viðtölum

Á vef Eymundsson er hægt að setja inn umsagnir um þær bækur sem eru til sölu. Þar má meðal annars lesa dóma lesenda um bækurnar Hannes - nóttin er blá, mamma eftir Óttar Martin Norðfjörð og Eitur fyrir byrjendur eftir Eirík Örn Norðdahl. Um þá fyrrnefndu segir einn lesenda einfaldlega: "Ósvikið meistaraverk". Bóksalinn Kristján Freyr Halldórsson segir Eitur fyrir byrjendur vera frábæra bók: "Bók Eiríks kemur inná margar tilfinningar, yfir lestrinum má bæði hlæja og gráta. Eiríkur skrifar mjög vel og maður líður áfram um lipran textann og erfitt var að leggja frá sér bókina. Frábærir dómar um hana koma ekki á óvart."

Nýhil vill hvetja fólk til að nýta sér möguleikann til að skrifa umsagnir um bækur á vef Eymundsson.

Kristján er ekki einn um að þykja mikið til Eiturs fyrir byrjendur koma. Rithöfundurinn og smásagnaskáldið Ágúst Borgþór treinir sér bókina þessa dagana og les fáeinar síður á dag. Á bloggi sínu segir hann m.a.: "Algjörlega óumbeðinn er ég að glugga í Eitur fyrir byrjendur. Ég fór upp að síðu 40 áðan. Það var nánast nautn. Flottur stíll, draumkennt andrúmsloft, ófyrirsjáanleiki. Þrælgóður texti."

Eiríkur Örn ræddi bókina við Víðsjá í gær, og má hlusta á það viðtal á vef RÚV.

Þá ræddi Viðar Þorsteinsson, útgáfustjóri Nýhils, um forlagið, félagið og félagaforlagið í Vítt og breitt í gær.

Engin ummæli: