föstudagur, desember 08, 2006

Bloggað um bækur og ó-bækur


Talsvert er bloggað um fyrsta bindi ævisögu Hannesar Hólmsteins Gissurarson eftir Óttar Martin Norðfjörð, Hannes - Nóttin er blá, mamma, einkum í ljósi yfirstandandi klögunarmáls Nýhils á hendur Eddu útgáfu og umræðu sem spunnist hefur um hvort bókin sé í raun bók. Hinn aðsópsmikli bloggari og rithöfundur Ágúst Borgþór Stefánsson hefur þetta að segja: "Þeim [Nýhil] nægir ekki að láta þennan ævisögubrandara standa sem slíkan heldur teygja hann á langinn með frekar idjótískum kvörtunum og kærumálum."
Guðmundur Magnússon sagnfræðingur og ritstjóri tekur hins vegar undir með Lesbók Morgunblaðsins og segir að skilgreining bókar sé undirorpin vilja höfundarins, að ljóð sé það sem ljóðskáld segi að sé ljóð, að bók sé það sem bókarhöfundur segir að sé ljóð.
Nýhil fagnar umræðunni um hvað sé bók, og leggur nú á ráðin um málþing í samstarfi við Samtök Iðnaðarins, Prenttæknistofnun og Heimspekistofnun Háskóla Íslands þar sem spurningin verður rædd í pallborði af sérfræðingum. Bent skal á að klaga Nýhils á hendur Eddu snýst þó ekki um skilgreininguna á bók, heldur rangfærslur í auglýsingum varðandi metsölulista sem Hannes var óneitanlega efstur á.

Engin ummæli: