miðvikudagur, desember 06, 2006

Nýhil sendir erindi til NeytendastofuNýhil hefur sent svohljóðandi bréf til Neytendastofu:

Reykjavík, 6. desember 2006

Til: Neytendastofu

Nýhil áhugamannafélag (kt. 580203-3960) sendir eftirtalið erindi til Neytendastofu og leitar eftir ákvörðun hennar vegna framferðis Eddu-útgáfu hf (kt. 710800-3590).

Í Fréttablaðinu 3. desember sl. birti Edda opnuauglýsingu undir fyrirsögninni ‘Vinsælustu bækurnar’. Eru þar nokkrar bækur forlagsins kynntar og sæti þeirra á metsölulistum Morgunblaðsins og/eða sölulista Pennans-Eymundsson og Bókabóða MM tíundaður. Í tilfelli einnar bókar (Ljósið í djúpinu e. Reyni Traustason) er sæti ekki tilgreint heldur er eftirfarandi texti settur í staðinn:

„Mest selda bókin í flokki ævisagna samkvæmt metsölulistum.“
(Sjá mynd.)

Nýhil gerir alvarlega athugasemd við þennan auglýsingatexta þar eð mest selda bókin í flokki ævisagna samkvæmt þeim tveimur metsölulistum sem voru nýbirtir á þessum tíma er alls ekki umrædd bók heldur er það bókin Hannes – nóttin er blá mamma eftir Óttar Martin Norðfjörð sem gefin er út af Nýhil. (Sjá mynd).

Þann 6. desemeber hafði útgáfustjóri Nýhils samband við kynningarstjóra Eddu og leitaði skýringa á þessum fullyrðingum. Þær einu skýringar voru gefnar að kynningarstjórinn teldi Hannes – nóttin er blá, mamma ekki sambærilega við bækur Eddu og að Edda réði því hvað og hvernig hún auglýsti. Ekkert kom fram í samtalinu sem benti til þess að vitnað hefði verið til metsölulista annarra en þeirra þar sem Hannes – nóttin er blá, mamma er sannarlega talin mest selda ævisagan.

Nýhil telur hér um að ræða brot á 6. grein laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins (2005 nr. 57 20. maí) – enda hafi „rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum“ verið veittar með því að annað hvort vitna til metsölulista sem ekki eru til eða fara vísitandi rangt með ótvíræðar niðurstöður þeirra metsölulista bóka sem í umferð eru.

Nýhil fer þó aðeins fram á að Edda – útgáfa birti leiðréttingu á umræddri auglýsingu í þeim fjölmiðlum þar sem hún birtist og biðji höfund og útgefanda Hannesar – nóttin er blá, mamma opinberlega afsökunar.


Fyrir hönd Nýhils,

___________________________
Viðar Þorsteinsson, útgáfustjóri

Engin ummæli: