mánudagur, júní 12, 2006

Tandri Árdal: Af gefnu tilefni


(Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 9. júní)
Það er ekki oft sem það gefst jafn skemmtilegt tækifæri til að bregðast við kalli um úrbætur eins og nú, þegar síður Morgunblaðsins hafa verið þaktar skrifum um þörf á góðum bókaverslunum í henni Reykjavík. Ólafur Stefánsson frá Syðri-Reykjum skrifar í gær, í tilefni af þörfum pistli skáldbróður míns Péturs Gunnarssonar, um hnignun kaupmennsku á sviði bókmennta í samtímaveruleika okkar. Vissulega hafa margir orðið til að benda á – einkum sín og milli og í einkasamtölum – að í óefni sé komið þegar ekki er lengur hægt að ramba inn í fallega bókabúð og láta þar fingur leika eftir rykföllnum kilinum á stórvirki einhvers af gömlu meisturunum.
Þannig er nútíminn – trunta, eins og einhver sagði! – að allt er á hverfanda hveli, og eitt tekur við af öðru. En þó er ekki öll von úti, því nýverið opnaði einmitt í miðbæ Reykjavíkur bókaverslun sem gefur fyrirheit um betri tíð. Ég er hér að sjálfsögðu að tala um Ljóðabókaverslun Nýhils, sem opnaði þann 23. maí í kjallaranum í Kjörgarði, Laugavegi 59. Ungu skáldin taka við þar sem okkur þá eldri brestur, og hafa svo sannarlega sýnt að þau eru föðubetrungar á fleiri en einu sviði. Í þessari ágætu ljóðabókabúð er að finna nánast allt það sem Ólafur lætur sig dreyma um – ‘notalegt umhverfi’, ‘fagfólk’ (já, ef ekki hreinlega starfandi rithöfunda, og þá ekki af verri endanum!) og sannkallaða, dulúðlega bókastemningu.
Ég vonast til að rekast á þá kumpána, Ólaf og Pétur, einhvern sólríkan eftirmiðdaginn í ljóðabókaverslun Nýhils, einu alvöru bókabúðinni í Reykjavík!
-- Tandri Árdal (Höfundur er ljóðskáld og fyrrv. léttvínsinnflytjandi)

Engin ummæli: