föstudagur, október 27, 2006

Fenrisúlfur - spangólandi 2. jólaskáldsaga Nýhils


Nýhil kynnir:

FENRISÚLFUR e. Bjarna Klemenz

Í Reykjavík sem er skuggalegri en nokkur glæpasaga dvelur Bergur, hávaðaseggur og miðbæjarrotta sem lifir í fantasíuheimi á mörkum noise-tónlistar og norrænnar goðafræði. Hann kemst í kynni við hina dularfullu BDSM-drottningu Védísi á netinu og þarf í kjölfarið að keppa um hylli hennar við súkkulaðidrenginn sem gengur undir nafninu Bronsmaðurinn, hvers dagar verða brátt taldir ... Á bak við allt saman lúrir skuggi undraverunnar eða ofurhetjunnar Fenrisúlfs – sem Bergi er ekki ljóst hvort er eigin hugarsmíð eða blákaldur raunveruleiki. En svo mikið er víst að bíll Bergs ber heitið Naglfar og hann er fastagestur á skemmtistaðnum Niflheimi.

„Fenrisúlfur iðar af skuggum og skrímslum hversdagsins“ – Hugleikur Dagsson

Margklofnir persónuleikar, hnakkar, treflar og hvítir hrafnar leika lausum hala í þessari fyrstu skáldsögu Bjarna Klemenzar (f. 1978), æsispennandi noir-trylli sem er ekki fyrir viðkvæmar sálir. Útgefandi er Nýhil.

Fenrisúlfur verður fáanlegur í verslunum ásamt hinum jólaskáldsögum Nýhils, en þær eru Svavar Pétur & 20. öldin (Haukur Már Helgason) og Eitur fyrir byrjendur (Eiríkur Örn Norðdahl).

Nánari upplýsingar veitir Viðar Þorsteinsson, útáfustjóri Nýhils, í s. 695 4280, nyhil@hive.is

Fenrisúlfur | 176 bls. | útg. Nýhil 2006 | viðmiðunarverð 3.500 krónur | ISBN 9979-9751-3-X

Engin ummæli: