þriðjudagur, febrúar 03, 2009

Stefnuyfirlýsing Nýhils í ljósi stjórnarbyltingar


Stefnuyfirlýsingin er og verður kvenkyns orð í eintölu með ákveðnum greini. Stefnuyfirlýsingin er Nýhil. Nýhil er kvenkyns orð í eintölu með ákveðnum greini. Nýhil er stefnuyfirlýsingin.

Nýhilistar ætla söfnuðinum enga stjórn, ekkert yfir og ekkert undir, heldur fagna hugmyndinni um söfnuðinn sem fjarverandi miðju, fagna því að hringsnúast um ekkert, eins og hjól á vagni eða spaðar á þyrlu, Nýhilistar eru fegnastir því að miðjan er gat.

Nýhil er klúbbur sem stofnaður hefur verið í Berlín og hægt er að ganga í án allra skuldbindinga. Nýhil er ekki yfirskin fyrir framapot nokkurra bókmenntamanna (eins og fjandmenn okkar vilja telja ykkur trú um).

Við höfum afráðið að sameina margvíslega starfsemi okkar undir heitinu Nýhil. Við fundum Nýhil, við erum Nýhil og við höfum Nýhil. Nýhil fannst í orðabók, það merkir ekki neitt.

Nýhil er aðal og innan Nýhil er Eiríkur aðal. Og hann er líka besti vinur aðal.

Kári Páll er meðal þeirra sem lesa. Kári er af fátæku fólki kominn.

Alvörugefnir, alvörugefnir, alvörugefnir fram í rauðan dauðann!

Hildur Lilliendahl er klækjakvendið sem giftist Paul til þess að hafa alla peningana af honum.

Valur Brynjar skilur meginmuninn á hugtökunum verund og engu.

Styrkur okkar á rætur að rekja til menningar okkar og baráttu okkar við náttúruöflin.

Kristín Svava er fær um að leysa úr læðingi óvænta orku í tungumálinu

Anna Björk er gift Tómasi A. Holton kennara og eiga þau tvö börn. Kærastinn hennar heitir Elí Már.

Marta Guðrún er algjört yndi, óhrædd við að segja skoðanir sínar, skemmtileg, fyndin og ótrúlega krúttleg.

Nýhil er afleiðing þess að troða fjörutíu sardínudósum í eina.

Steinar Bragi er 26 ára, og hefur áður gefið út ljóðabækurnar Svarthol, og Augnkúluvökvi, auk skáldsögunnar Turninn. Steinar minnir á bítskáldin.

Jón Bjarki er fínn strákur en dálítið öfgakenndur í skoðunum og vildi bara fá að vaða áfram með allt sem hann heyrði utan að sér hvort sem það var staðfest eða ekki. Hann er ungur og á vonandi eftir að læra.

Miðráð Nýhils beitir sér fyrir tafarlausum reglusetningum um öll kynferðisleg sambönd í samræmi við hin alþjóðlegu Nýhilísku viðhorf, með stofnun Nýhilískrar kynferðismiðstöðvar.

Haukur Már er 22 ára ungur maður, uppalinn í Hafnarfirði. Hann á afmæli 4. júlí og verður því 23 ára á þessu ári.

Óttar Martin talar tékknesku og honum þykir skemmtilegast að baka pizzur á Eldsmiðjunni.

Ingólfur er fílabeinsturnamarmarastyttulagðurvinstrifrík, þessi jól verða vændisjól.

Nýhil er ekki í andstöðu, eða öðrum stellingum, ýmist kenndum við móðurlíf eða hegra.

Þórdís er bara að verða hálf þrítug með engan kærasta, enga peninga og engan almennilegan starfsferil.

Gísli Hvanndal er tvítugur ólafsfirðingur en hann var valinn besti söngvari músíktilrauna árið 2000, þá aðeins 15 ára gamall.

imma er alltaf rifast. ég nenni ekki þessa imma rifast i siður min.

Nýhil er Kristín Eiríksdóttir. Kristín Eiríksdóttir er öðruvísi en ég. Kristín Eiríksdóttir er ugluauga í rafi og lifandi trjákvoða.

Vinsamlegast fjarlægið nafn mitt af þessari yfirlýsingu. Eða takið afleiðingunum. Mér er sama.

Offi er býsna brattur fýr / bestur er hann sefur. / Setur oft í góðan gír / glaður er sá refur.

Loðmfjörð er íslenskt millinafn.

Vinsamlegast fjarlægið nafn mitt.

Og hálfur Fransiskus hlær og hlær!

Díalektíkin er smellin maskína sem fær okkur, með ómerkilegum aðferðum, til að aðhyllast skoðanir sem við myndum ætíð hafa aðhyllst hvort eð væri. Öll síun af þessu tagi er sykurhúðuð ræpa.

Nýhil biðst afsökunar á því hversu illa hann hefur komið fram við innflytjendur - hunsaði þá í útgáfu sinni og leyfði allt of fáum að sinna ábyrgðarstöðum.

Nýhil heimstyrjöld og enginn endir, Nýhil bylting og ekkert upphaf. Hvernig öðlast maður himneska sælu? Með því að segja Nýhil. Hvernig verður maður frægur? Með því að segja Nýhil.

Nýhil sér enga ástæðu til að skammast sín fyrir líkamslykt sína, en drekkir henni þó í ilmvötnum og rakspírum og skrúbbar hana burt með sturtu og baðferðum, oft á dag. Við skulum ekki rugla saman almennu hreinlæti og skömm.

Gegn hinni fagurfræðilegu-siðfræðilegu íhugun! Gegn heimsbótakenningum bókmenntalegra þöngulhausa!

Nýhil er pínu spes, ekki fyrir alla allavega.

Nýhil er heiður og ánægja. Nýhil er sjálfseignarstofnun undir beinni stjórn ungra, starfandi rithöfunda. Nýhil er rithöfundaforlag og hefur þann tilgang að stuðla að vexti og viðgangi nýsköpunar í íslenskum bókmenntum.

Nýhil er eini sparisjóðurinn sem borgar vexti að eilífu. Nýhil tvöfaldar tekjur ykkar. Leggið fé ykkar í Nýhil! Nýhil er félag ungra ljóðskálda sem hefur vakið athygli með nýstárlegum ljóðaupplestrum.

Heilög jómfrú var Nýhilisti á sínum tíma.

Fjarlægið nafn mitt af þessari yfirlýsingu, annars hringi ég í lögfræðing.

Nýhil skolar burt hræjum Medúsu úr íslenskri menningu, hræjum fyndnu kynslóðarinnar og aflóga líkum atómskáldanna, gegnvotum af formalíni. Nýhil kryfur lík Nýhilista og fleygir innyflum þeirra blóðugum í sorpkvarnir. Fyrir okkar daga var orðsins list ekki til.

Nýhil kvartar til menntamálaráðherra, stöðugt, ítrekað: ENIGA MENIGA! VIÐ VILJUM MEIRI PENINGA!!!

Við lýsum yfir andstöðu gervalls algeimsins við þessa rotnu lekandasól sem komin er úr verksmiðjum heimspekilegrar hugsunar og harðvítugri baráttu með öllum tiltækum aðferðum hins Nýhilíska viðbjóðs.

Ekki verða skrifuð fleiri manifestó í nafni Nýhil. Þeir sem birta manifestó í nafni Nýhil verða sóttir til saka á grundvelli höfundarréttarlaga.

Fjarlægið nafn mitt.

Nýhil er búið.