fimmtudagur, febrúar 05, 2009

manífestó - nýhil þegir!

Of lengi hafa listamenn neitað að nýta þögnina á skapandi hátt.

Við lifum í samfélagi þar sem þögninni er í vaxandi mæli ógnað

Hávaði er að breyta umhverfinu!

Orð eru eins og verstu þungavinnuvélar, diskótek opið allan sólarhringinn, vændishús á götuhorni með hljóðkerfi sem magnar stunurnar.

Orð eru pyntingar með merkingar og meiningar. Sársauki sem hugurinn þarf að túlka stanslaust.

Maðurinn getur einungis skapað í þögn. Maðurinn getur einungis hugsað án áreitis. Ljóð sem hávaði sinna hvorugum þörfum.

Hávaði hefur ekki listrænt gildi heldur er notaður af hinu kapítalíska hagkerfi til að merkja sér svæði. Borgir hafa sín sérstöku umhverfishljóð. Barir hækka hljóðin í botn til að fólk finni þörf hjá sér til að kaupa meira áfengi.

Nýhil neitar að vera með læti til að vera með læti, hávaði er andfélagslegur, rokkið sundrar, þögnin sameinar.

Tónlistin náði fullkomnun sinni í verkinu 4'33 eftir John Cage.

Ljóðið nær fullkomnun sinni í tómri stílabók.

Leikhús er gervilegt, en í þögninni myndast oftast dramatískustu augnablikin og það er þá sem við uppgötum galdur leikhússins - ekki í öskrum og látum ofleikaranna.

Þögnin kemst næst guðdóminum rétt eins og fullnægingin. Enginn getur kannað fullnægingu. Enginn getur mælt guðdóminn. Enginn getur rannsakað þögnina.

nýhil er hætt að öskra

nýhil þegir af listrænum metnaði

Engin ummæli: