föstudagur, janúar 09, 2009

Anarkíska forlagið Nýhil


Í árdaga forlagsins var það siður að skrifa reglulega ný manífestó. Hér er upphafið að nýju slíku, ritað á skömmum tíma.


Nýhil er og verður kvenkyns orð.

Nýhil er anarkískt höfundaforlag.

Nýhil er ekki samstilltur hópur og laus við að hafa fasta fulltrúa, því geta allir sem á einhvern hátt tengjast hópnum sagt og gert hvað sem er í nafni hópsins - svo framarlega að ekki sé brotið gegn almennri skynsemi.

Allir titlar innan hópsins eru bull, þeir sem hyggjast byggja ferilsskrá sína á störfum innan Nýhiljar nýta tímann sinn illa.

Nýhil biðst afsökunar á hversu illa hún hefur komið fram við konur - hunsaði þær í útgáfu sinni og leyfði allt of fáum að sinna ábyrgðarstöðum. Engin sönn og réttlát andstaða getur hunsað kynjabaráttuna (og stéttabaráttuna) og Nýhil fagnar því að vera jafnt í móðurlegum stellingum og í andstöðu.

Nýhil iðrast þess að hafa þegið styrk hjá Landsbankanum og lofar að gera slík mistök ekki aftur og aldrei byggja aftur á brunarústum markaðskerfisins heldur eyða af brennandi heift.

Í sannleika sagt hefur Nýhil aldrei byggt upp ákveðna ungskálda fagurfræði í andstöðu sinni við hið íhaldssama; það eru íhaldssamir fulltrúar bókmenntaheimsins sem í ákveðni sinni í að halda sérstöðu og einkaréttindum hafa skapað mismuninn. Þeir hafa skapað sérsvæði fyrir „ungskáld“ einungis til að halda ungskáldunum þar föstum.

Þó Nýhil vinni mest með útgáfu og vinnslu á orðum, er Nýhil ekki mjög hrifin af orðum - orð sundra en gjörðir sameina. Nýhil fagnar andófi í verki frekar en í orðum.

Allar yfirlýsingar eiga að segja lítið og meina meira.


Bryndís Björgvinsdóttir
Gísli Hvanndal
Haukur Már Helgason
Hildur Lilliendahl
Ingólfur Gíslason
Jón Bjarki Magnússon
Jón Örn Loðmfjörð
Kári Páll Óskarsson
Kristín Eiríksdóttir
Kristín Svava Tómasdóttir
Viðar Þorsteinsson

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þeirri aðferð hefur verið beitt til að kanna hlut kvenna í yfirlitsritum að bera saman fjölda kvenna í bókinni annars vegar og fjölda karla sem heita Jón hins vegar. Ég man reyndar ekki alveg hvaða hlutföll þóttu ásættanleg.

Haukur Már sagði...

Jess! Jess! Jess!

Húrra!

Húrra!

Húrra!

Þarna kom það.

Lof sé ykkur, kæru vinir – djöfull stóð þessi fjandi á sér … sjö ár. Sjö ár tók það að kreista yfirlýsingu úr klettadranga. En mikið er það gott þegar það hefst.

Næstum tárvotur. Ykkar, héðan í frá, af trúfestu fáráðlinga,

Haukur Már.

Nafnlaus sagði...

Við á Aftöku fögnum anarkískum bókaormi og hlökkum til að sjá næstu bækur.
Ekkert yfirvald,
enginn guð,
enginn landamæri,
engar þjóðir,
niður með kapítalismann
og lengi lifi vægðarlaus og gagnrýnin hugsun!

Hildur Lilliendahl sagði...

Þetta er gullfallegt. Ég hef fylgst með þessum tilraunum í næstum fimm ár og haft mikið gaman af en djöfull var þetta erfið fæðing.

Vitanlega náðist ekki um þetta samstaða frekar en öll hin sem hefur verið reynt að semja en það er alltílæ. Það ræður þá hver hvort hann skrifar undir eður ei.

Ég fagna hástöfum þessum feminíska andblæ og mér er heiður af því að skrifa undir.

ingó sagði...

Má ég líka skrifa undir?

Nafnlaus sagði...

já! stórkostlegt, má ég líka skrifa undir?

Kristín Eiríksdóttir?

Nafnlaus sagði...

http://aftaka.org/2009/01/15/anarkisk-nyhil/