föstudagur, október 16, 2009

Ánægja með þjónustu Sorphirðunnar

Mótmælum brottvísun flóttamanna frá Íslandi / Ragna þrjótur!


Í tilefni af grein sem Nýhilstinn Haukur Már skrifaði og birtist upprunalega á Smugunni, vill Nýhil hvetja alla til að mæta í dag (föstudaginn 16. okt.) á Lækjatorg klukkan 12:00 og fagna góðum störfum íslensku Sorphirðunnar.

Í kjölfarið mun skrifstofustjóri neyslu og úrgangs Ragna Árnadóttir segja frá sorphirðumálum í Evrópu í Háskólanum (sal 132 í Öskju), klukkan 13:35. Áhugsamir hvattir til að mæta.sjá nánar hérRuslið

Rusl er merkilegt orð. Annars vegar vísar það til þeirra hluta sem hafa misst gildi sitt, notagildi eða annað, og eru orðnir óþarfir. Benda má og spyrja: Er þetta rusl? Ef svarið er já, hvað er þá, hins vegar, gert við það? Því er hent í ruslið. Þar er hin merking orðsins – staðurinn fyrir það sem hefur misst gildi sitt.
Reyndar er ofmælt að það sé staður – ruslið er frekar staðleysa, gat á heiminum, út úr honum. Það sem er sett í ruslið á ekki að snúa þaðan aftur, og þorra fólks finnst ekki geðslegt að borða matvæli sem hent hefur verið í ruslið, hvort sem þau eru heil eða ekki. Ruslið er gat á heiminum í þeim skilningi að það sem hefur verið fært yfir þessi mörk, í ruslið, á þaðan í frá ekki að láta bæra á sér á heimilinu. Hvort það verður urðað, brennt eða endurunnið gildir einu, bara að það snúi ekki aftur. Þannig lagði víst kona í Reykjavík, ekki fyrir löngu, fram kæru þegar hún sá alheilt reiðhjól sem hún hafði hent í ruslið – já, þetta var þá líklega í góðærinu – snúa aftur undir rassinum á ókunnugu fólki. Maður vill ekki hafa svona lagað.

Auðvitað hættir rusl ekki að vera til, þó búið sé til þetta táknræna gat til að stinga því í, körfur, lúgur og tunnur. Það er sótt af starfsmönnum sem færa það um í bílum og koma því fyrir þar sem sem minnst fer fyrir því, og sem minnst má gera úr því. Það sem er ekki urðað eða endurunnið er brennt – en meira að segja af því stígur reykur, sem blæs kannski burt á haf út hér af eynni en snýr víst alltaf aftur einhvern veginn, einhvern daginn. Það er lúga í blokkinni og það er púströr á bílnum en það er ekkert gat á heiminum.

Nú hefur íslenska ríkið enn einu sinni ákveðið að fara út með ruslið. Menn hafa ráðfært sig hver við annan, bent og spurt: Er þetta rusl? Og í samræmi við almenn sjónarmið annarra vestrænna ríkja hafa þeir kinkað kolli hver við öðrum og sagt já, þetta er rusl. Ef ske kynni að ruslið skyldi ekki láta segjast kölluðu þeir á Mister Proper sem kom umsvifalaust eins og brosandi stormsveipur inn á heimilið og hrifsaði með sér þetta drasl: þrjá karlmenn sem heita Nour, Mohamed og Mohamed.

Hvað er gert við ruslið? Því er hent í lúguna. Múhammeðana tvo þekki ég ekki, en það má víst almennt gera ráð fyrir því að menn sem heita slíku nafni séu rusl, ekki bara óþarft heldur skaðvænlegt heilsu fólks. Það virðist almennt viðurkennt. Nour þekki ég hins vegar. Ég hafði enga grein gert mér fyrir þessu. Ég hélt að hann væri andskoti efnilegur 19 ára gamall piltur með staðfast augnaráð og áhuga á tónlist. Svolítið glysgjarn kannski. Svo reyndist hann bara vera rusl. Lögreglan tók til. Sótti hann og setti hann á sinn stað, í ruslið.

Þegar fólk er sett í ruslið gildir það sama og um annað sem þangað ratar: við hvorki vitum um afdrif þess né viljum þekkja þau. Við vitum að ruslið er sett á einhvern illa lyktandi og þröngan stað, því er sturtað og hent til og frá – en hvort sem það er urðað, brennt eða endurunnið skiptir mestu máli að það er farið, þvælist ekki lengur fyrir okkur til óþurftar og jafnvel skaða. Nour flúði til Íslands undan stríðinu í Írak. Íslenska ríkið tók þátt í að hefja það stríð – en hvað var það líka nema svolítil sorphirðuframkvæmd? Já, Nour komst undan sorphirðunni, en ekki lengi. Nú setjum við hann aftur í ruslið. Það er alls ekki nákvæmt að kalla það morð – hver veit hvað Nour fær að húrra lengi um rennuna og bíða lengi í tunnunni áður en hann verður sóttur. Og hver veit hvort ofninn verður í gangi? Hver veit nema einhver gramsi í ruslinu, rekist á Nour og finni not fyrir hann?

Mohamed og Mohamed – heilu öskuhaugarnir fullir af drasli sem kallar sig Mohamed. Það sér ekki högg á vatni þó við hendum þessum tveimur. Þetta heldur bara áfram að koma. Eins gott að sorphirðan bregðist ekki – það er ekki á það bætandi í kreppunni.

Þetta er ekki hnatthlýnun. Það hlýnar ekki af sorpbrennslunni og eiturgufunum sem af henni stíga, það hitnar. Það hitnar hratt. Eins gott að sorphirðan bregðist ekki, það er ekki alls ekki á það bætandi í kreppunni.

- Haukur Már Helgason

Engin ummæli: