laugardagur, maí 09, 2009

Chantal Mouffe:
Róttæk stjórnmál í samtímanum


13. júní
HT102 (salur 102 á Háskólatorgi)



Chantal Mouffe flytur opinn fyrirlestur í Reykjavík þann 13. júní næstkomandi. Fyrirlesturinn nefnist á ensku „Radical Politics Today“ og í honum mun Mouffe gera grein fyrir hugmyndum sínum um hlutverk forræðis (e. hegemony) í róttækri stjórnmálabaráttu. Hún mun bera kenningar sínar saman á gagnrýnin hátt við hugmyndir Antonios Negri, sem flytur fyrirlestur hér á landi þann 26. maí.

Chantal Mouffe er einkum þekkt fyrir kenningar sínar um lýðræði, sem eru að hluta settar fram sem gagnrýni á kenningar frjálslyndra stjórnspekinga á borð við John Rawls og Jurgen Habermas en ekki síður sem gagnrýni á aðra vinstrimenn og marxista. Hún skrifaði bókina Hegemony and Socialist Strategy ásamt Ernesto Laclau, en í henni beittu þau kenningum ítalska marxistans Antonios Gramsci á nýstárlegan hátt. Mouffe er prófessor í stjórnspeki við Westminster-háskóla á Bretlandi. Greinin „Til varnar ágreiningslíkani um lýðræði“ birtist í 16. tölublaði Hugar, tímarits Félags áhugamanna um heimspeki árið 2004.

Það er Nýhil sem stendur að fyrirlestrinum en styrktar- og samstarfsaðilar eru Evrópa unga fólksins, Hugvísindasvið Háskóla Íslands, Heimspekistofnun Háskóla Íslands, Félag áhugamanna um heimspeki, Listaháskóli Íslands og Nýlistasafnið.

Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangseyrir er enginn. Boðið verður upp á spurningar að framsögu Mouffe lokinni. Nánari upplýsingar á www.nyhil.org.

Engin ummæli: