laugardagur, maí 16, 2009

Kommúnismi 21. aldarinnar:
Höfundar Empire sækja landið heim


Michael Hardt: Kommúnisminn sem hið sameiginlega (The Common in Communism)

Antonio Negri: Nokkrar hugleiðingar um hugtak og framkvæmd kommúnismans (Some Reflections on the Concept and Practice of Communism)

Þriðjudagur 26. maí kl. 20:00-22:00

Um fyrirlesarana
Antonio Negri er, ásamt Michael Hardt, höfundur bókanna Empire frá árinu 2000 og Multitude frá 2004. Negri var í hópi róttækra vinstrimanna á Ítalíu sem á sjöunda áratugnum tóku þátt í sjálfsprottinni andófshreyfingu verkamanna, autonomista-hreyfingunni, en hann gegndi þá stöðu prófessors í stjórnmálafræði við Padua-háskóla. Á áttunda áratugnum var Negri saklaus gerður að blóraböggli í alræmdri rannsókn ítalskrar lögreglu á morðinu á Aldo Moro, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu, og dæmdur til fangelsisvistar. Negri hélt þá til Parísar í útlegð líkt og fleiri róttækir vinstrimenn frá Ítalíu sem urðu fyrir ofsóknum stjórnvalda.

Negri, sem dvalið hefur í útlegð og í fangelsum stóran hluta ævi sinnar, hefur blandað saman túlkun autonomista á kenningum Karls Marx, eigin rannsóknum á Spinoza, kenningum Foucaults um lífvald og skapandi verufræði þeirra Deleuze og Guattari. Auk Multitude og Empire eru helstu verk Negris bókin The Savage Anomaly um Spinoza (U. of Minnesota Press 2000) og Time for Revolution (Continuum 2005) auk nýútkominnar viðtalsbókar, In Praise of the Common (U. of Minnesota Press 2008).

Michael Hardt er prófessor í bókmenntum við Duke-háskóla í Bandaríkjunum. Hann er þekktastur fyrir skrif sín í félagi við Antonio Negri, en hann hefur einnig þýtt og ritstýrt fjölda bóka um róttæka stjórnmálaheimspeki á Ítalíu. Má þar nefna greinasafnið Radical Thought in Italy (meðritstj. Paolo Virno, U. of Minnesota Press 2006) auk þess sem hann skrifaði inngangsrit um heimspeki Deleuze, Gilles Deleuze: An Apprenticeship in Philosophy (U. of Minnesota Press 1993).

Í Empire (Harvard University Press 2000) fjalla Hardt og Negri um þróun hnattvædds kapítalisma út frá óhefðbundinni blöndu marxisma og póst-strúktúralisma. Þeir telja að ný og óformleg tegund stjórnvalds, Empire (Veldið), hafi haldið innreið sína í valda- og viðskiptakerfi heimsins í kjölfar nýrra framleiðsluhátta og hnattvæðingar og þannig leyst heimsvaldastefnu einstakra þjóðríkja af hólmi. Empire og framhald hennar, Multitude (Penguin 2004), hafa haft mótandi áhrif á umræðu fræðimanna um hnattvæðingu stjórnmála og viðskipta á síðasta áratug, auk þess sem hugmyndir Hardts og Negris eiga sér óumdeilda samsvörun í róttækum mótmælahreyfingum samtímans. Aðrir fræðimenn hafa skipst í flokka eftir afstöðu sinni til hugmynda Hardts og Negris, en af gagnrýnendum þeirra má nefna Slavoj Zizek og Chantal Mouffe, en sú síðarnefnda mun reifa þá gagnrýni í erindi sínu hér á landi þann 13. júní næstkomandi. Þýðing á köflum úr Empire birtist í 15. tbl. Hugar, tímarits Félags áhugamanna um heimspeki árið 2003, en gagnrýnandi New York Times kallaði bókina „kommúnistaávarp 21. aldarinnar.“

Efni fyrirlestranna

Í erindi sínu, sem nefnist „Kommúnisminn sem hið sameiginlega“, mun Michael Hardt gera grein fyrir túlkun sinni á kommúnisma út frá hinu sameiginlega, í formi bæði náttúrugæða og þess sem maðurinn framleiðir. Hið sameiginlega nær að mati Hardts utan um land, vatn og loft, sem og tungumál, þekkingu, hugmyndir og hughrif. Hardt mun rökstyðja hvernig framleiðsla í auðmagnskerfinu snýst í vaxandi mæli um og reiðir sig á framleiðslu hins sameiginlega. Samt sem áður er hið sameiginlega og framleiðslugeta þess eyðilagt um leið og því er breytt í einka- eða almenningseign. Verkefni framtíðarinnar er að mati Hardts að tryggja frjálst aðgengi og flæði hins sameiginlega.

Fyrirlestur Negris, „Nokkrar hugleiðingar um hugtak og framkvæmd kommúnismans“, fjallar að hluta um hefðbundin viðfangsefni marxískrar heimspeki og söguskoðunar: sögulega efnishyggju, stéttabaráttu og andstöðu við ríkisvaldið. Hann tekur saman nokkur af helstu umfjöllunaratriðum kenninga sinna, svo sem mergðina (multitude), hið sameiginlega og lífvaldið, auk þess sem hann ræðir um þörfina á því að finna andófi samtímans skipulagðan farveg. Hann rökstyður að geta mergðarinnar til að skapa hið sameiginlega verði að vera uppistaðan í sköpun kommúnisma framtíðarinnar.

Fyrirlestur Hardts fer fram á ensku en Negri mun tala á ítölsku með íslenska þýðingu á skjá. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill, og boðið verður upp á fyrirspurnir úr sal að fyrirlestrum loknum. Fjölmiðlum sem óska eftir viðtölum við Michael Hardt og/eða Antonio Negri er bent á að hafa samband við skipuleggjendur.

Um fyrirlestraröðina

Fyrirlestrarnir marka upphafið að fyrirlestraröðinni „Endurkoma róttækninnar“ sem Nýhil stendur fyrir. Röðinni verður fram haldið með opnum fyrirlestri Peters Hallward þann 11. júní og henni lýkur með opnum fyrirlestri Chantal Mouffe þann 13. júní. Fyrirlestrar Hallward og Mouffe verða auglýstir sérstaklega.

Styrktar- og samstarfsaðilar fyrirlestraraðarinnar eru Evrópa unga fólksins, Hugvísindasvið Háskóla Íslands, Heimspekistofnun Háskóla Íslands, Félag áhugamanna um heimspeki, Listaháskóli Íslands og Nýlistasafnið.

Nánari upplýsingar veita:
Viðar Þorsteinsson | vidart@simnet.is | s. 695 4280
Anna Björk Einarsdóttir | anbjei3@gmail.com | s. 857 8007

Engin ummæli: