þriðjudagur, mars 10, 2009

Heyr, heyr! Viðhafnarútgáfa ævisögu Hannesar Hólmsteins væntanleg!

Á afmæli helsta merkisbera nýfrjálshyggjunnar, Hannes Hólmsteins Gissurarsonar næstkomandi föstudag, mun sérlega glæsileg viðhafnarútgáfa af ævisögu hans líta dagsins ljós. Er það ævisagnaskrásetjaraskrifarahöfundurinn Óttar Marteinn Norðfjörð sem hefur veg og vanda að útgáfunni.

Eins og alþjóð veit hefur Óttar tekið upp á sitt einsdæmi að gera lífi og myndum Hannesar skil í veglegum bókakosti, heilum þremur bindum sem hafa komið út árlega síðan 2006. Vegna fjölda fyrirspurna eru ævisagnaheftin þrjú nú útgefin saman í sérstökum bókakassa, ásamt ýmsu aukaefni. Ber þar helst að nefna örljóðabókina Hannes og Ég, Kapítalistaávarpið, viðtal við Hannes um íslenska efnahagsundrið, Opið bréf til varnar æskuvini Hannesar, Davíði Oddssyni. Auk þess fylgir vel unnið myndasafn bókinni sem rekur ævi Hannesar í myndum. Aðeins verða gerð 50 eintök af þessum glæsigrip, árituð og gullmerkt, og sem fyrr rennur allir ágóði til Mæðrastigsnefndar.

Búist er við að fyrsta eintak þessa þrekvirkis verði afhent Hannesi Hólmsteini við konunglega athöfn á Bessastöðum, föstudaginn 19. febrúar kl. 17:00. Þar mun útrásarforsetinn Ólafur Ragnar Gíslason færa Hannesi eintakið, sem og veita Óttari sérlega fálkaorðu fyrir vel unnin störf. Þar með kemst Óttar á stall meðal silfurstrákanna okkar. Má því með sanni segja að Óttar Marteinn sé orðinn að silfurstrák íslenskrar bókmennta. Við óskum honum til hamingju með það.

Auk Óttars og Ólafs fara með erindi Davíður Oddsson, Vigdís Finnbogadóttur og Halldór Laxness mun slá botn í kvöldið með pistli um íslensku sauðkindina. Hrogn verða á boðstólnum. Um tónlist sér Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Allir velkomnir.

Með bestu kveðju,
Nýhil

Engin ummæli: