þriðjudagur, mars 10, 2009

Óhugnanleg hrollvekja um mannfyrirlitningu og misbeitingu valds



Þann 4. mars síðastliðinn voru menningarverðlaun DV veitt í þrítugasta sinn. Athöfnin fór fram í Gyllta salnum í Hótel Borg. Skáldsaga Steinars Braga, Konur sem Nýhil gaf út í desember var tilnefnd til verðlaunanna.

Verðlaunin, sem voru veitt í átta flokkum - bókmenntum, byggingarlist, fræðum, hönnun, kvikmyndalist, leiklist, myndlist og tónlist -, voru samkvæmt vefnum DV.is veitt fyrir framúrskarandi árangur á listasviðinu á síðastliðnu ári.

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir tilnefningunni sagði þetta: “Óhugnanleg hrollvekja um mannfyrirlitningu og misbeitingu valds gegn konum eða hverjum þeim sem er í þeirri aðstöðu að vera undir hæl þeirra sem hafa takmarkalaust vald yfir öðrum í krafti fjármagns og þekkingar; samtímasaga sem ýtir við lesendum og vekur þá til umhugsunar. Stíll og frásagnartækni njóta sín til fulls í óvenjulegri skáldsögu eftir einn af áhugaverðustu höfundum Íslendinga nú um stundir.”

Skáldsagan hlaut ekki verðlaun að þessu sinni en Nýhil óskar Steinari Braga innilega til hamingju með tilnefninguna.

Konur seldist upp hjá Nýhil fyrir jól og tók Forlagið í kjölfarið við útgáfunni. Hana má nú finna í kilju-útgáfu í öllum helstu bókaverslunum. Nýhil hvetur fólk eindregið til þess að næla sér í eintak af þessu magnaða verki.

Engin ummæli: