þriðjudagur, október 31, 2006

Anna Björk, EÖN, Valur B. Antons


Nýhil veit að þið hafið ábyggilega flest lesið greinina hennar Önnu Bjarkar á Kistunni, en ef þið skylduð ekki hafa gert það þá er hún hér:
http://www.kistan.is/efni.asp?n=4940&f=4&u=98 [Til varnar ljóðinu]
Grein Eiríks Arnar Norðdahl sem minnist er á má finna hér:
http://fjallabaksleidin.blogspot.com/2006/10/vi-fornan-fjrustein.html
[Við fornan fjörustein]
Og að lokum skal ákaflega minnt á pistil Vals Brynjars sem var fluttur í Síðdegisútvarpinu í dag, en hann er einmitt hér:
http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4249630/9 [Úr Babelsturni Nýhils]

mánudagur, október 30, 2006

Hvernig svarar maður Þorsteini frá Hamri?

- eða vandinn að hafa ekki efni á Meira en mynd og grunur

Þú kaupir þér ekki nagla
til að krossfesta sálir –
þú þarft einúngis
að hnykkja rétt á orðunum.


-Úr ljóðinu Golgata eftir Þorstein frá Hamri, úr bókinni Spjótalög á spegil

Ég hafði ekki haldið niðri matarbita í tæpan sólarhring þegar ég fékk smáskilaboð frá móður minni. Síminn pípti: „Líttu í Lesbók Mbl!“ Ég tíndi til einhverjar nálægar spjarir og staulaðist fram í gegnum leifar tveggja daga gamals matarboðs, niður brakandi tréstiga Öldunnar á eigin brakandi mjöðmum. Morgunblaðið var komið.

„Ég hef ekki heyrt öðru fleygt en Eiríkur Örn Norðdahl sé skýrleiksmaður.“ Ekki get ég sagt grein Þorsteins frá Hamri hafi byrjað illa, fyrir mig. Ég las mig í gegnum pistilinn í sótthitakasti og gat einhvern veginn ekki betur séð en ég hefði, kannski í öðru eins óráði, kallað Þorstein frá Hamri „rumpulýð sem aldrei nennir neinu nema láta kjálkamótorana ganga linnulaust“, að hann væri haldinn þeim tendens að stunda „einhvers konar sjálfróun sem [á] fyrst og síðast að eiga sér stað tigarlaust hangandi í sturtuhengjum“ og að hann hafi árum saman litið svo á að list hans sé fyrir hina fáu, eigi að vera fjarlæg og hana eigi ekki að vera hægt að nálgast“.

Í veikindum mínum næsta sólarhringinn starði ég út í þennan dauða sem tveggja daga rúmlega veitir lifandi mönnum og velti fyrir mér þessari ægilegu spurningu: Hvernig svarar maður Þorsteini frá Hamri? Og fylltist satt best að segja nokkru vonleysi gagnvart verkefninu.

Hafandi löngum lagt stund á bægslagang veit ég orðið vel hversu líklegt er að einhver taki honum illa, og enn fremur hef ég lært að það er engu ólíklegra að menn taki honum illa að ósekju. Bægslagangur hefur veraldlega ókosti, en ljóðræna kosti.
Hvað ég var nákvæmlega að hugsa meðan á þessu viðtali stóð man ég varla, ég á ekki lengur heildarhugsanirnar heldur bara svörin, eins og aðrir lesendur, sem veitt voru við einhverjar tilteknar aðstæður á tilteknum tíma. Ég er ekki ósammála sjálfum mér í neinu af því sem ég segi, en ég inniheld mergðir eins og Whitman og aðrir menn, og er þó einungis fær um að finnast eitt í einu. Ég tel enn að Íslendingar séu meira gefnir fyrir að tala en að framkvæma, ég tel enn að íslensk ljóðskáld séu feimin, og á stundum hrokafull, í list sinni og ég tel enn að ljóðabækur stóru forlaganna séu of dýrar. Á meðan ég hef ekki efni á þeim eru þær of dýrar.

Löngu eftir að pestin var runnin út í veður og vind og farin að plaga eitthvað allt annað fólk en sjálfan mig, var ég enn jafn glórulaus um það hvernig maður svarar Þorsteini frá Hamri. Ég fletti honum upp á netinu. Hann hefur fjórum sinnum verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, sagði ég við sjálfan mig og stundi þungan eins og farlama, búkollulaus karlsson. Ekki það ég vilji líkja Þorsteini við tröllskessu, svona til að fyrirbyggja allan frekari misskilning. Þetta virtist allt bara eitthvað svo vonlaust. Ég var kannski ekki ósammála sjálfum mér, en það er líka ólíklegt ég hafi skilið mig á sama hátt og Þorsteinn. Kannski var ég líka ekki alls kostar viss hvað Þorsteinn hafði sagt, kannski skildi ég hann hreinlega ekkert betur en hann mig. Sagði hann mig hafa haldið því fram að þau Ingibjörg létu kjálkamótorana ganga linnulaust? Að þau litu á ljóðlistina sem exklúsíft listform?

Til áréttingar og útskýringar: Þegar ég talaði um rumpulýðinn sem lætur kjálkamótorana ganga linnulaust átti ég einfaldlega við fólk almennt, hvorki meira né minna Þorstein frá Hamri en alla aðra Íslendinga sem ég ekki þekki. Og punkturinn er sá að gríðarlega mikið finnst af fólki sem finnst gaman að gera plön, en minna af fólki sem framfylgir plönum. Þetta hefur ekkert sérstaklega að gera með skáld. Nýhil er viðbragð við framkvæmdaleysi. Nýhil framkvæmir.

Mig grunar hins vegar að það hafi fyrst og síðast verið það sem kom næst sem særði Þorstein.

„Nýhil er ómeðvitað viðbragð við þeim tendensum innan íslenskrar ljóðlistar að hún sé exklúsíft listform, að hún sé einhvers konar sjálfsfróun sem eigi fyrst og síðast að eiga sér stað tignarlaust hangandi í sturtuhengjum. Íslensk ljóðskáld hafa árum ef ekki áratugum saman litið svo á að list þeirra sé fyrir hina fáu, og eigi að vera fjarlæg og hana eigi ekki að vera hægt að nálgast.“

Ég tek kannski fullmikið upp í mig með þessari fullyrðingu. Réttara væri að segja að mér virðist mörg íslensk ljóðskáld líta svo á að list þeirra sé fyrir hina fáu. Þetta fæ ég ekki á tilfinninguna af ljóðunum sjálfum heldur framsetningu þeirra, sem er alltaf að nokkru leyti á ábyrgð skáldanna þó ýmsir aðrir véli þar um. Ég tók sem dæmi í umræddu viðtali að mér þættu nýjar ljóðabækur frá stóru forlögunum almennt alltof dýrar, og nefndi þau Þorstein og Ingibjörgu, einfaldlega vegna þess að ég hef tvisvar snúið dapur heim úr bókaverslun sem ég hafði heimsótt til þess að kaupa mér ljóðabók. Í fyrra skiptið ætlaði ég að kaupa Hvar sem ég verð eftir Ingibjörgu og í það seinna þegar ég hugðist kaupa Meira en mynd og grunur eftir Þorstein. Mér þótti þetta afskaplega ömurleg lífsreynsla; ég þóttist eiga nægan monnípening í vasanum til að geta leyft mér þann munað að kaupa það sem þótti nýjast og heitast árið 2002. En svo var auðvitað ekki. Og ég les ekki ljóðabækur á bókasöfnum, einfaldlega vegna þess að þær fúngera ekki svo fyrir mér að ég lesi þær í gegn og skili þeim aftur út í bæ. Ljóðabækur verður maður að eiga ætli maður á annað borð að kynnast þeim.

Harðkápubækur á fallegum pappír eru fjarska eigulegar, en bækur þurfa ekki að vera mublur þó höfundarnir séu virtir og dáðir. Þannig má fagna framtaki á borð við það sem Óskar Árni Óskarsson og Bragi Ólafsson réðust í með liðsinni Smekkleysu fyrir fáeinum mánuðum að gefa út lítil kver sem hvort kostar 1.290 krónur, nýjar ljóðabækur Bjarts eru á tæplega 1.700 krónur, og þar sem ég nefni Nýhil sem viðbragðið er rétt að geta líka seríunnar Norrænar bókmenntir, þar sem kaupa má 9 ljóðabækur fyrir alls 6.750 kr. Sú upphæð hefði ekki dugað mér fyrir tveimur harðkápuljóðabókum frá Máli og menningu árið 2002.

Þá skilst mér að samningar RSÍ um spilun ljóða í útvarp séu þannig gerðir að útvarpsmenn veigri sér við að hleypa ljóðum í loftið, af ótta við að brenna upp fjárlög heilu þáttana á örfáum mínútum. Og segir mér svo hugur að þennan samning hafi skáldin sjálf samið.

Alla mína ævi hefur verið gengið út frá þeirri forsendu að ljóðið sé dautt, meira að segja þegar fjálglegast er lýst yfir lífi þess, er forsendan þessi dauði: Ljóðið er aldrei einfaldlega lifandi, það er „ekki dautt“. Ég lifði aldrei neina tíð þar sem ljóðlist þótti sjálfsögð, og veit ekki einu sinni hvort hún hefur nokkurn tímann verið til. Mér hefur alla tíð, eða í öllu falli frá því ég fór sjálfur að möndla við skáldskap, þótt þetta alveg gríðarleg vonlaus afstaða. Hverjum sem um er að kenna, skáldum, lesendum, fjölmiðlum, ljóðunum, eða öllum saman.

En maður svarar auðvitað ekki Þorsteini frá Hamri með orðavaðli, tafsi og útskýringum. Maður biðst bara velvirðingar. Mér þykir í raun og sanni miður hafi orð mín valdið honum hugarangri. Þeim var ekki síst ætlað að benda á þann vanda að dýrar bækur eru eðlilega bara fyrir vel sett fólk.

Eiríkur Örn Norðdahl
- Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins 28. október.

föstudagur, október 27, 2006

Fenrisúlfur - spangólandi 2. jólaskáldsaga Nýhils


Nýhil kynnir:

FENRISÚLFUR e. Bjarna Klemenz

Í Reykjavík sem er skuggalegri en nokkur glæpasaga dvelur Bergur, hávaðaseggur og miðbæjarrotta sem lifir í fantasíuheimi á mörkum noise-tónlistar og norrænnar goðafræði. Hann kemst í kynni við hina dularfullu BDSM-drottningu Védísi á netinu og þarf í kjölfarið að keppa um hylli hennar við súkkulaðidrenginn sem gengur undir nafninu Bronsmaðurinn, hvers dagar verða brátt taldir ... Á bak við allt saman lúrir skuggi undraverunnar eða ofurhetjunnar Fenrisúlfs – sem Bergi er ekki ljóst hvort er eigin hugarsmíð eða blákaldur raunveruleiki. En svo mikið er víst að bíll Bergs ber heitið Naglfar og hann er fastagestur á skemmtistaðnum Niflheimi.

„Fenrisúlfur iðar af skuggum og skrímslum hversdagsins“ – Hugleikur Dagsson

Margklofnir persónuleikar, hnakkar, treflar og hvítir hrafnar leika lausum hala í þessari fyrstu skáldsögu Bjarna Klemenzar (f. 1978), æsispennandi noir-trylli sem er ekki fyrir viðkvæmar sálir. Útgefandi er Nýhil.

Fenrisúlfur verður fáanlegur í verslunum ásamt hinum jólaskáldsögum Nýhils, en þær eru Svavar Pétur & 20. öldin (Haukur Már Helgason) og Eitur fyrir byrjendur (Eiríkur Örn Norðdahl).

Nánari upplýsingar veitir Viðar Þorsteinsson, útáfustjóri Nýhils, í s. 695 4280, nyhil@hive.is

Fenrisúlfur | 176 bls. | útg. Nýhil 2006 | viðmiðunarverð 3.500 krónur | ISBN 9979-9751-3-X

föstudagur, október 20, 2006

20. öldin snýr aftur – Nýhil kynnir skáldsögu Hauks Más Helgasonar


Nýhil kynnir:

SVAVAR PÉTUR & 20. ÖLDIN e. Hauk Má Helgason

„Það er hvorki neitt við lífið að athuga né um það að segja. En það má drepa tíma með orðum, það er fínt.“
– Svavar Pétur, bankastarfsmaður

Svavar Pétur og 20. öldin segir af bankastarfsmanninum eilífa, Svavari Pétri Svavarssyni, sem er gert að flytja líkið af John Lennon frá New York til Kópavogs, þar sem því verður stillt upp við hafnarmynnið til að bjóða íbúa velkomna í 20. aldar-garðinn Öldina okkar. „Atburðastýran“ Ásthildur gerir Svavari Pétri tilboð sem hann getur ekki hafnað uns verkefnið vex honum, vægast sagt, yfir höfuð, og jafnvel persónulegustu minningar hans sjálfs af 20. öldinni eru ekki lengur óhultar.

„Þeir sem fylgdust í forundran með Yoko Ono reisa súlu handa Lennon á sama tíma og Gorbachev var skyndilega staddur í Höfða í boði Landsbankans hafa eflaust velt fyrir sér hvaða mikli höfundur stóð á bak við þessa atburði. Sá höfundur var Haukur Már Helgason og hann er til alls vís.“ – Andri Snær Magnason

Þetta er fyrsta skáldsaga Hauks Más Helgasonar, sem áður hefur sent frá sér ljóðabækur og kennslubækur. Útgefandi er Nýhil.

Von er á tveimur skáldsögum til viðbótar frá Nýhil fyrir jólin. Þær eru Fenrisúlfur eftir Bjarna Klemenz og Eitur fyrir byrjendur eftir Eirík Örn Norðdahl

Nánari upplýsingar veitir Viðar Þorsteinsson, útáfustjóri Nýhils, í s. 695 4280, nyhil@hive.is

Svavar Pétur og 20. öldin | 176 bls. | útg. Nýhil 2006 | viðmiðunarverð 3.500 krónur | ISBN 9979-9751-4-8

miðvikudagur, október 18, 2006

Gagnrýni um Veru og Linus í Publisher's Weekly

Stærsta og virtasta málgagn heims í útgáfumálum, Publisher's Weekly, birti í vikunni ritdóm um hið Nýhil-útgefna prósaverk Vera og Linus. Dómurinn er á þessa leið:
"In this unusual collection of what are arguably prose poems, sketches or pieces of flash fiction, husband and wife Ball (March Book, 2004) and Björnsdottir introduce a charming yet gruesome pair of protagonists: Vera and Linus. They are childlike, living in a world where giving presents and playing are top priority, but they are also devoted lovers and perhaps siblings. Their twisted fairy tale world is as magical as it is disturbing: in it, a treasure chest opens up to reveal an entire lake inside, and children and animals are tortured for the protagonists' amusement. Episodes of violence ("Vera and Linus broke the dog's neck and put the body into a brown canvas bag which they tied neatly with great satisfaction") are often sewn seamlessly into scenes of fanciful beauty: "...their sorrows were carried away... to the court of the sea-king, and dined on there to much acclaim...." The light touch and often archaic feel of the prose owes as much to Kafka as to classic fairy tales. Certainly many readers will find this book unsettling, but most will also find it hard not to remember a time when the world was filled with this kind of fearful mystery and wonder, though hopefully not this kind of violence."
Nýhil óskar Jesse og Þórdísi til hamingju. Veru & Linus má kaupa í öllum helstu bókabúðum.