laugardagur, mars 11, 2006

Vinnur Silvía Nótt?

Magnús Sigurðsson hefur skrifað grein um Íslandsmeistaramót Nýhils í ömurlegri ljóðlist á vef Tímarits Máls og menningar,
www.tmm.is. Þar gerir Magnús því skónna að Silvía Nótt hljóti að teljast ótvíræður sigurvegari mótsins, enda séu ljóð hennar með ömurlegra móti. Meðal annars segir: "Ef ég ætla að tala um Ágústu Evu sem ljóðskáld (og ég sé ekkert því til fyrirstöðu – þau eru til að mynda ófá ljóðin sem hún hefur þulið í þáttum sínum Sjáumst með Silvíu Nótt), þá verð ég engu að síður að taka tillit til þess að Silvía Nótt er hennar persona; gríma á borð við þær sem bandaríska ljóðskáldið Ezra Pound setti upp og einkenna æskuskáldskap hans; í raun og veru annar persónuleiki sem bætist við persónuleika listamannsins. Þessi persona Ágústu afhjúpar og afhelgar, rétt eins og Íslandsmeistaramótinu í vondum kveðskap er ætlað að gera, auk þess sem hún hæðist óborganlega að hógværð og almennu velsæmi – þessum tveim höfuðeinkennum á skáldi hins haganlega orta kveðskapar sem Eiríkur og önnur Nýhil-skáld hafa amast nokkuð við. Þess utan er ég ekki frá því að Ágústa Eva/Silvía Nótt hafi hreinlega samið vinningsljóð keppninnar nú þegar og þar með skotið skáldunum sem vonuðust eftir glæsilegri bókagjöf í vinning ref fyrir rass."

Þá vitnar Magnús í ljóð sem Silvía Nótt flutti í Dægurmálaútvarpi Rásar 2 þegar hún hafði verið valin kynþokkafyllsta kona Íslands. Ljóðið hljómar svo, í línuskiptingum Magnúsar og með titli hans:

Yfir heiminn og allsráðandi

Hvað er það sem fær blómin
til að draga út anga sína
í angist og svefnleysi?

Hvað er það sem fær lítil börn
til að stinga sig
í hjartað?

Hvað er það sem gefur
blóð yfir sjóinn
þegar hrafninn flýgur?

Er það ekki ástin sem kviknar
þegar kynþokki Silvíu Nætur
lætur á sér kræla?

Ó jú, það er kynþokki Silvíu Nætur
sem lætur ljósin kvikna.

Silvía Nótt, sofðu rótt
í eilífðar þyrnirósar Íslandía,
yfir heiminn og allsráðandi,
amen.

Grein Magnúsar má nálgast með því að smella
hér.

Engin ummæli: