mánudagur, janúar 28, 2008

Sekúndu nær dauðanum hrósað í hástert af virtum íslenskufræðingi

Missið ekki af hinni stórskemmtilegu gagnrýni Katrínar Jakobsdóttur í þættinum Mannamál með Sigmundi Erni, en þar fjallar hún m.a. um ljóðabók Ingólfs Gíslasonar, "Sekúndu nær dauðanum - vá, tíminn líður". Sjáið herlegheitin HÉR.

mánudagur, janúar 21, 2008

Íslam með afslætti uppseld hjá útgefanda

* Íslam með afslætti uppseld hjá útgefanda *

Nýhil er sársaukablandin ánægja að tilkynna að hið merka safnrit *Íslam með afslætti* hefur runnið út líkt og ræpa af hillum bókaverslana frá því bókin kom út í byrjun mánaðarins og er nú uppseld hjá útgefanda.

Aðstandendur bókarinnar hafa á síðustu vikum svamlað um öldur ljósvakamiðla og rætt um málefni Íslam og Íslendinga í þáttum á borð við Kastljós, Silfur Egils, Víðsjá og Helgarútgáfuna, auk þess sem prentmiðlar hafa gert verkinu góð skil.

Bókin hefur hlotið einstaklega jákvæðar viðtökur hjá velflestum sem um hana hafa fjallað, þótt dýpt, rökfesta og marbrotin tök hennar á viðfangsefni sínu hafi sett stöku fjölmiðlamann úr jafnvægi.

Fjölmargir lesendur hafa lýst ánægju sinni með framtakið, bæði í bloggheimum og í heyrenda hljóði. Ljóst er að íslensku þjóðina sárþyrstir í upplýsandi og blæbrigðaríka umræðu um hina dularfullu múslima.

Annarrar prentunar Íslam með afslætti er von fyrir helgi og geta áhugasamir því gert sér för í bókabúð, bjartsýnir og kátir í skapi, nú um helgina.

Ritstjórar bókarinnar eru Auður Jónsdóttir og Óttar Martin Norðfjörð, bæði rithöfundar.

fimmtudagur, janúar 10, 2008

Kastljósið og Morgunvaktin


Hlustið á Auði Jónsdóttur og Viðar Þorsteinsson á Morgunvaktinni HÉR

og

horfið á Auði Jónsdóttur og Hauk Má Helgason í Kastljósinu HÉR

um ÍSLAM MEÐ AFSLÆTTI.

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Fyrir hina árrisulu

Morgunhanar lífsins: í fyrramálið (þ.e.a.s. miðvikudag) klukkan 07:00 verða Auður Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 um hið nýútkomna stórvirki Íslam með afslætti. Sjáumst þar! Nefndin.

mánudagur, janúar 07, 2008

Rabbað um Íslam með afslætti í Víðsjá

Auður Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson spjölluðu við þá Hauk Ingvarsson og Guðna Tómasson í Viðsjá síðastliðinn föstudag. Tilefnið var kynningarpartí bókarinnar "Íslam með afslætti" sem út kemur í dag. Hlustið á viðtalið HÉR.

fimmtudagur, janúar 03, 2008

Íslam og Íslendingar - bókarkynning á föstudag


Íslam á Íslandi
- fyrsta bók ársins kynnt á föstudag ásamt hneykslanlegum teikningum!

Föstudaginn 4. janúar kl. 17 verður útgáfu bókarinnar Íslam með afslætti fagnað í bókabúðinni Útúrdúr á Njálsgötu 14. Um er að ræða greinasafn í ritstjórn rithöfundanna Auðar Jónsdóttur og Óttars M. Norðfjörð sem fjallar um hættulegar einfaldanir í umræðunni um íslam á Íslandi og víðar í heiminum.

Í bókinni er að finna 12 myndir gerðar af innlendum og erlendum myndlistarmönnum sem varpa upp þeirri spurningu hvort Íslendingum sé nokkuð heilagt, en múslimar hafa verið gagnrýndir fyrir að leggjast gegn skopteikningum af spámanninum Múhameð. Myndirnar í bókinni draga upp rætna mynd af hlutum sem Íslendingum eru heilagir, en þær verða hengdar upp til sýnis í útgáfuveislunni. Einnig eru tvær skopteikningar í bókinni eftir þau Hugleik Dagsson og Lóu Hjálmtýsdóttur.

Í ritnefnd bókarinnar sátu Viðar Þorsteinsson, Haukur Már Helgason, Eiríkur Örn Norðdahl og Þórarinn Leifsson. Meðal greinarhöfunda í bókinni má nefna Magnús Þorkel Bernharðsson, Amal Tamimi, Jón Orm Halldórsson, Guðberg Bergsson og Þórhall Heimisson. Áberandi er einnig að fjöldi höfunda af yngri kynslóðinni skrifar í bókina um innflytjendamál og trúarbragðadeilur. Í bókinni er enn fremur viðtal við Yousef Inga Tamimi, 19 ára gamlan múslima sem er fæddur og uppalinn á Íslandi.

Bókin er 190 síður og verður dreift í allar helstu bókaverslanir strax eftir helgi. Nýhil gefur út.

Allir eru velkominir á bókakynninguna, en þar verður boðið upp á íslamskt snakk og aðstandendur bókarinnar verða til viðtals.

Nánari upplýsingar:
Auður Jónsdóttir - audur@jonsdottir.com - 659-3603
Óttar M. Norðfjörð - ottarmn@gmail.com - 866-9276