fimmtudagur, ágúst 21, 2008

Ljóð fljúga um Gáttir á vængjum þýðinga



Nýhil kynnir, tárvott af stolti: Gáttir / Gateways – þýðingarit 4ðu alþjóðlegu ljóðahátíðar Nýhils, í ritstjórn Kára Páls Óskarssonar og hönnun Söru Riel.

Í tilefni af Ljóðahátíð Nýhils, sem nú er haldin í fjórða sinn, kemur út sérstakt rit með þýðingum á verkum innlendra og erlendra skálda sem koma fram á hátíðinni. Með útgáfu ritsins, sem nefnist Gáttir eða Gateways, er ætlunin að gera skáldunum sem koma fram á hátíðinni kleift að lesa verk hvers annars, sem og að kynna betur verk erlendu skáldanna. Einnig gefst mörgum upprennandi íslenskum höfundum í fyrsta sinn færi á að fá verk sín þýdd á ensku, sem vonandi verður fyrsta skrefið í landvinningum þeirra erlendis í framtíðinni. Enn fremur eru Gáttir hin glæsilegasta sýnisbók ungrar, íslenskrar ljóðagerðar.

Erlendu skáldin sem eiga verk í Gáttum eru þessi: Nina Søs Vinther (Danmörk), Ida Börjel (Svíþjóð), Hanno Millesi (Austurríki), Ann Cotten (Þýskaland), Sureyyya Evren (Tyrkland) og Morten Søkilde (Danmörk).

Eftirtalin íslensk skáld eiga jafnframt þýðingar á ensku í bókinni: Kristín Svava Tómasdóttir, Kári Páll Óskarsson, Ingólfur Gíslason, Eiríkur Örn Norðdahl, Haukur Már Helgason, Kristín Eiríksdóttir, Linda Vilhjálmsdóttir, Jón Örn Loðmfjörð, Örvar Þóreyjarson Smárason, Ófeigur
Sigurðsson, Una Björk Sigurðardóttir og Ragnar Ísleifur Bragason.

Einnig er í bókinni stuttur texti um hvert skáld á íslensku og ensku ásamt mynd.

Ritstjóri Gátta / Gateways er Kári Páll Óskarsson, rithöfundur og þýðingafræðingur. Hönnun og frágangur bókarinnar, sem er einkar glæsilegur, var í höndum myndlistarkonunnar Söru Riel. Það er Prentsmiðjan Oddi sem prentaði bókina, en Nýhil og Oddi eiga í samstarfi um framsækna bókagerð. Bókin verður til sölu á 1500 krónur á öllum viðburðum ljóðahátíðar Nýhils, og í bókaverslunum eftir helgi. Bókin er harðspjalda og 109 síður að lengd.

1 ummæli:

Haukur Már sagði...

Þetta þykir mér alveg hrikalega falleg kápa! Ég horfi bara og horfi.