föstudagur, október 20, 2006

20. öldin snýr aftur – Nýhil kynnir skáldsögu Hauks Más Helgasonar


Nýhil kynnir:

SVAVAR PÉTUR & 20. ÖLDIN e. Hauk Má Helgason

„Það er hvorki neitt við lífið að athuga né um það að segja. En það má drepa tíma með orðum, það er fínt.“
– Svavar Pétur, bankastarfsmaður

Svavar Pétur og 20. öldin segir af bankastarfsmanninum eilífa, Svavari Pétri Svavarssyni, sem er gert að flytja líkið af John Lennon frá New York til Kópavogs, þar sem því verður stillt upp við hafnarmynnið til að bjóða íbúa velkomna í 20. aldar-garðinn Öldina okkar. „Atburðastýran“ Ásthildur gerir Svavari Pétri tilboð sem hann getur ekki hafnað uns verkefnið vex honum, vægast sagt, yfir höfuð, og jafnvel persónulegustu minningar hans sjálfs af 20. öldinni eru ekki lengur óhultar.

„Þeir sem fylgdust í forundran með Yoko Ono reisa súlu handa Lennon á sama tíma og Gorbachev var skyndilega staddur í Höfða í boði Landsbankans hafa eflaust velt fyrir sér hvaða mikli höfundur stóð á bak við þessa atburði. Sá höfundur var Haukur Már Helgason og hann er til alls vís.“ – Andri Snær Magnason

Þetta er fyrsta skáldsaga Hauks Más Helgasonar, sem áður hefur sent frá sér ljóðabækur og kennslubækur. Útgefandi er Nýhil.

Von er á tveimur skáldsögum til viðbótar frá Nýhil fyrir jólin. Þær eru Fenrisúlfur eftir Bjarna Klemenz og Eitur fyrir byrjendur eftir Eirík Örn Norðdahl

Nánari upplýsingar veitir Viðar Þorsteinsson, útáfustjóri Nýhils, í s. 695 4280, nyhil@hive.is

Svavar Pétur og 20. öldin | 176 bls. | útg. Nýhil 2006 | viðmiðunarverð 3.500 krónur | ISBN 9979-9751-4-8

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"Sá höfundur var Haukur Már Helgason og að hann er til alls vís"

?????