fimmtudagur, apríl 06, 2006

Nýhilisti lifir af

Hættuástandi var lýst yfir í herbúðum Nýhils á Vestfjörðum í gær, og voru 6 hús rýmd í Bolungarvík þegar brýnnar á Sigmundi Erni voru komnar niður fyrir mið augu. Einn björgunarsveitarmaður fótbrotnaði þegar hann lenti á milli bíla við störf sín á Súðavíkurhlíð. Þá spurðist til bónda sem bjargaði konu í Ísafjarðardjúpi í gærkvöldi. Ekki er á þessari stundu ljóst hver bóndinn var, hver konan var, eða frá hverju hann bjargaði henni. Að sögn Eiríks Arnar Norðdahl, fulltrúa Nýhils á Vestfjörðum, var veðurofsinn slíkur að vart sá út úr augum. "Ég hljóp í gegnum bæinn í gær til að hjálpa móður minni að bera húsgögn, og þurfti að feta mig áfram eftir minni sökum hríðarinnar", segir Eiríkur. Veðrið gekk niður í nótt samhliða almennri hysteríu landans og er nú fjarska bjart í Vestfjarðaútibúinu enda snjór upp um allar hlíðar og yfir öllum vegum, húsum, skáldum og gangstéttum. Samkvæmt óformlegri rannsókn Nýhils tekur það um eina mínútu fyrir augu meðalmannsins að venjast við þegar hann kemur að utan inn í hús. "Maður fetar sig bara um eftir minni" segir Eiríkur.

Myndin hér að ofan var tekin þegar Nýhil túraði norðanverða Vestfirði fyrir fáeinum misserum síðan. Maðurinn með hattinn er téður Eiríkur Örn Norðdahl, konan með plasthattinn og áfengið fyrir framan hann er Hildur Lilliendahl, og sposki maðurinn með sólgleraugun er Steinar Bragi Guðmundsson. Myndin er tekin á kajanum á Súðavík. Tekið skal fram að myndin er tekin um sumar.

1 ummæli:

Hildur Lilliendahl sagði...

Við erum svo sólbrún og sælleg. Gott að vita að lífið hafi einhvern tímann verið svona sólbrúnt.